Að hefja nýtt samband

Eitt af því erfiðasta sem við stöndum frammi fyrir á lífsleiðinni er að missa þann sem við elskum. Að því kemur þó yfirleitt, þegar við erum tilbúin til þess, að við veltum fyrir okkur möguleikanum á að finna ástina á ný. Það getur gerst á hvaða aldri sem er.

Nýtt ástarsamband þarf ekki endilega að þýða hjónaband. Töluvert margir sem misst hafa maka sinn velja nú að vera einfaldlega í sambúð eða að eiga bara kærasta/kærustu og fara út saman.

Sorg og ástarsamband

Enda þótt það sé spennandi að verða ástfanginn á ný geta hugsanir um ástvininn sem lést varpað skugga á nýja sambandið, hversu gott sem það er. Stundum finnur fólk til sektarkenndar þegar þörfin fyrir nánd og líkamlega ást ber að dyrum. Oft vakna tilfinningar í tengslum við andlátið sem ekki hefur verið unnið úr og þær leita því sterkar á, því meir sem reynt er að bæla þær niður. Þessar tilfinningar snúast oft um missi og söknuð. En þær geta einnig verið reiði yfir því að makinn sé látinn eða gremja gagnvart pörum sem geta hlakkað til að verja ellinni saman. Stundum snúa þær að dapurlegum eða jafnvel skelfilegum minningum um síðustu daga eða vikur hins látna og þeim sem eftir lifir kann vel að finnast að hann hafi ekki alltaf verið þolinmóður eða ástríkur við deyjandi maka.
Allar þessar kenndir eru fyllilega eðlilegar en það gerir þær ekki endilega neitt auðveldari viðureignar.

Hvenær ættir þú að vera tilbúin/n í nýtt ástarsamband?

Þú átt ef til vill eftir komast að því að sorgarferli þitt er ekki í samræmi við hugmyndir annarra um hvernig það ætti að vera. Stundum finnst fjölskyldu og vinum að þú takir of langan tíma í að syrgja. Þú getur líka fengið sterklega á tilfinninguna að einhverjum finnist þú harðbrjósta vegna þess að þeim virðist þú hafa „komist yfir“ sorgina of fljótt. Hvert okkar tekst á sinn eigin hátt við dauðann og enginn á rétt á að setjast í dómarasæti yfir öðrum. Þó eru margir fljótir að stökkva til og dæma, þegar kemur að því að fólk hefji nýtt ástarsamband eftir makamissi, blómstri ástin of fljótt að þeirra mati.
Nýleg rannsókn meðal fólks sem er 65 ára og eldra sýnir að 18 mánuðum eftir andlát maka eru 15% ekkna og 37 % ekkla orðin áhugasöm um að finna ástina á ný.

Hvað er of snemmt?

Ef makinn var mjög lengi dauðvona er nokkuð víst að þú hafir verið búin/n að syrgja í talsverðan tíma áður en hann/ hún lést. Það er því líklegra að þú sért fyrr tilbúin/n til að hefja nýtt líf en sá/sú sem misst hefur maka sinn skyndilega. Þegar maki er með langvarandi, ólæknandi sjúkdóm er ekki óalgengt að nýtt ástarsamband sé hafið áður en dauðann bar að garði. En þótt þetta nýja ástarsamband geti falið í sér mikla huggun þá getur það einnig verið uppspretta mikillar sektarkenndar.
Það er aldrei hægt að alhæfa þegar kemur að tilfinningalífi fólks. Engar tvær manneskjur eru eins. Almennt má þó segja að enn sé samfélagið ekki alveg tilbúið til að leggja blessun sína yfir ný ástarsambönd sem gerð eru opinber fyrr en um það bil ár er liðið frá andláti maka. Á þessu eru vissulega undantekningar, sérstaklega þegar það er á margra vitorði að hjónabandið hafi ekki verið mjög hamingjuríkt. Og vitanlega gengur nýtt ástarsamband ekki vel ef syrgjandinn vill komast hjá sársaukanum vegna missisins með því að skipta samstundis inn nýjum maka í stað þess sem fallinn er frá. Leiðin í gegnum sorgina eftir makamissi er einfaldlega ekki svo létt.

Að höndla viðbrögð annarra

Þú verður að muna að enginn veit nákvæmlega hvað þú ert að ganga í gegnum. Og enginn veit fyrir víst hvernig samband þitt og látna makans var. Í fullkomnum heimi myndi fólk því halda áliti sínu á nýja ástarsambandinu þínu fyrir sig. Í raunveruleikanum hafa vinir og ættingjar hins vegar yfirleitt skoðun á því og láta hana gjarnan í ljós.
Væntanlega verða flestir ánægðir með að þú hafir fundið hamingjuna aftur. En þó kann að vera að öfundar verði vart hjá vinum sem hafa verið einir á báti lengur en þú.

Tengdafólk

Þú getur því miður átt eftir að komast að raun um að fjölskylda látins maka þíns eigi erfitt með að sætta sig við að þú eigir í nýju ástarsambandi, jafnvel þótt mörg ár séu liðin frá andlátinu. Það er þá oft vegna þess að þeim finnst að þú sért búin/n að gleyma þeim sem dó. Í slíkum tilfellum er best að ræða við tengdaforeldrana og koma því áleiðis hversu stóran stað hinn látni mun ávallt eiga í hjarta þér. Einnig gætirðu komið því varlega að í samtalinu að makinn hefði ekki viljað að þú myndir syrgja að eilífu. Með tímanum gætu þau sætt sig við nýja ástarsambandið en þessar aðstæður krefjast þess að allir sýni góðvild og háttvísi.
Þótt það sé auðvelt að líta á slíka gagnrýni frá tengdafjölskyldu sem óþarfa hindrun í þínu nýja lífi skaltu reyna að hafa í huga að þau eru líka syrgjandi og þurfa að takast á við missi maka þíns. Og þótt það geti verið erfitt þá máttu aldrei gleyma því að tengdafólkið þitt er náskylt börnunum þínum; þau eru og verða alltaf amma og afi, frændur og frænkur. Þess vegna væri mjög sársaukafullt fyrir alla ef upp kæmi meiriháttar ágreiningur á milli ykkar.

Börnin

Þú gætir einnig lent í erfiðleikum gagnvart þínum eigin börnum. Ef þau búa enn heima verða þau fyrir beinum áhrifum af nýju sambandi. Þau gætu átt það til að vera fjandsamleg við slíkar aðstæður þar sem þeim líður eins og verið sé að þurrka mömmu eða pabba út úr fjölskyldulífinu. Það getur verið erfitt að takast á við slíkt þar sem börnin geta ennþá verið að ganga í gegnum djúpa sorg. Í slíkum aðstæðum er skynsamlegt að vera ekki mjög opinská/r um nýju ástina fyrr en börnin eru betur í stakk búin til að sætta sig við hana. Það er til dæmis ágætt að bíða með að leyfa nýja kærastanum/kærustunni að gista yfir nótt þar til börnin hafa sætt sig við að þú hafir fundið hamingju í nýju sambandi.
Séu börnin þegar flutt að heiman eru aðstæður aðrar og auðveldari. En þó svo að móðir eða faðir uppkominna barna þinna hafi dáið fyrir mörgum árum þá getur komið fyrir að þau bregðist illa við þegar þú segir þeim frá því að þú hafir fundið ástina aftur. Þetta eru alltaf eldfimar aðstæður og besta ráðið er að taka sér góðan tíma.

Hvað ef slitnar upp úr nýja sambandinu?

Því miður kemur fyrir að nýtt ástarsamband gengur ekki upp vegna sektarkenndar eða vegna þess að þú ert ekki tilfinningalega í stakk búin/n til þess að halda áfram. Stundum hverfur nýi félaginn á braut vegna þess honum finnst að þú sért of þurfandi eða í of miklum tilfinningatengslum við látna makann. Hver svo sem ástæðan er fyrir sambandsslitunum þá eru líkur á að þú finnir til mikilla sárinda sem aftur valda alls kyns tilfinningaróti og sársauka í tengslum við dauða maka þíns. Ef svo fer skaltu reyna að átta þig á að þetta tiltekna samband var alls ekki eina tækifæri þitt til að öðlast hamingju. Vera má að þú hafir ekki verið tilbúin/n í raun og veru fyrir nýtt samband og þurfir kannski að verja meiri tíma í að syrgja látinn maka þinn og byggja upp styrk þinn og hamingju. Einnig er vel mögulegt að þessi manneskja hafi einfaldlega ekki verið sú rétta fyrir þig. Leyfðu þér að vera einhleyp/ur um tíma að nýju, sinntu vinum og vinkonum og hikaðu ekki við að leita þér faglegrar aðstoðar til að takast á við vanlíðan. Að því kemur án efa, eftir nokkra mánuði – eða eitt eða tvö ár, að þú verður tilbúnari til þess að hefja nýtt ástarsamband.

Snúið á íslensku úr greininni Love after bereavement