Að varðveita minningar

Mikilvægt er að varðveita minningarnar um ástvin okkar, bæði fyrir okkur og börnin, en það er misjafnt hvernig við syrgjum svo að það er mikilvægt að leyfa börnunum að taka þátt í að ákveða með hvaða hætti það verður best gert. Heimilið er oftast umgjörðin um minningarnar, en það má líka fara út fyrir veggi þess til þess að minnast, svo sem að fara í ferðalög til uppáhaldsstaðanna, setjast inn á kaffihúsið sem fjölskyldan fór alltaf á saman og svo framvegis. Möguleikarnir eru ótal margir. Best er að fylgja hjartanu, innst inni vitum við sjálf betur en nokkur annar hvernig minningunni um okkar heittelskaða/heittelskuðu verður best haldið á lofti. Hér eru engu að síður nokkrar hugmyndir.

  • Safna saman hlutum og myndum úr eigu hins látna og því sem við áttum saman og geyma á sérstökum stað, svo sem í fallegum „minninga“-kistli.
  • Skrifa bréf til hins látna, n.k. „manstu“-bréf, þar sem við ávörpum ástvin okkar og rifjum upp minningarnar um það sem við áttum saman. Slík bréf má t.d. geyma í minningakistli.
  • Hvetja börnin til að teikna mynd af eða skrifa á blað bestu minninguna um hinn látna og geyma með öðrum minningum svo sem í ramma uppi á vegg eða í kistli með öðrum minningum. Það er líka gott fyrir hinn fullorðna að skrásetja bestu minningar sínar um látinn maka með sama hætti.
  • Taka saman myndasafn af ástvininum og fjölskyldunni og setja fram á frumlegan og skapandi hátt á góðum stað á heimilinu. Myndir sem gleðja og kalla með tímanum fram bros í gegnum tárin. Slíkt myndasafn getur hvatt fjölskylduna, ættingja, vini og gesti og gangandi til að hefja samtal um hinn látna og rifja upp sameiginlegar minningar en gestkomandi fólki finnst oft erfitt að brydda upp á slíkum samræðum.
  • Búa til bókahorn með bókum ástvinarins. Bækurnar sem hinn látni las og sankaði að sér segja mikið um persónuna og áhugamálin og það getur verið gott að setjast í góðan stól og glugga í þær og rifja upp minningar.
  • Láta prenta mynd, eða jafnvel mála portrett, af hinum látna, eða jafnvel góða fjölskyldumynd sem fær heiðurssess á heimilinu.
  • Stilla upp myndum, hlutum eða öðru sem minnir á merkisdaga í lífi látins ástvinar s.s. útskrift, brúðkaup, barneignir og þess háttar.
  • Stilla upp táknrænni mynd, hlut eða öðru sem minnir á uppvöxt hins látna og áhugamál á æskuárum s.s. mynd úr heimabænum eða af götunni þar sem hann ólst upp, uppáhaldsleikfangi eða öðru slíku. Börnunum getur sérstaklega þótt vænt um það.
  • Gera áhugamáli látins ástvinar hátt undir höfði og gefa því stað á heimilinu. Það geta verið hlutir, myndir, bækur eða hvaðeina annað. Ef til vill vilja makinn eða börnin taka upp þráðinn og tileinka sér þetta áhugamál og þá er gott að ýta undir það. Barninu kann t.d. að þykja það komast nær pabba eða mömmu með því að koma sér upp sama áhugamáli.
  • Utan heimilisins má gróðursetja tré til minningar um hinn látna, sumir koma sér upp minningarreit með þeim hætti. Það má gera úti í garði, við sumarbústaðinn eða á einhverjum stað sem hinum látna var kær – ath. það má auðvitað ekki gera hvar sem er og rétt er að fá leyfi ef ástæða er til.

     

Hugmyndir meðal annars fengnar af síðunni houzz.com

Minningar eru alls ekki eingöngu bundnar við myndir á vegg eða hluti í skúffu eða kistli. Þær tengjast því sem fjölskyldan gerði saman og þegar við höldum því áfram finnst okkur oft sem látinn ástvinur sé nær okkur og fylgi okkur eftir í því sem við gerum. Það hjálpar okkur, og ekki síður börnunum, til að muna stemningu, andrúmsloft og þess háttar.

  • Fara á uppáhaldsstaði fjölskyldunnar eða hins látna svo sem kaffihús, veitingastaði, eða staði úti í náttúrunni, fjall eða fjöru og allt þar á milli. Þetta getur verið mikilvægur liður í því að „búa til“ minningar fyrir ung börn sem missa foreldri.
  • Horfa saman á bíómyndir eða þætti sem voru í uppáhaldi hjá hinum látna og fjölskyldunni.
  • Hlusta á uppáhaldstónlistina ykkar, ýmist við dagleg störf, sérstakar aðstæður s.s. í bílnum eða á göngu, eða einfaldlega í hvíld.
  • Elda uppáhaldsmat, bæði hversdags og til hátíðabrigða. Rifja upp hvað mömmu/pabba/makanum fannst gott, hvað mamma vildi helst hafa á pizzunni sinni, að pabbi vildi alltaf hafa súkkulaði í öllu sem var bakað og svo framvegis.
  • Rifja upp viðbrögð við aðstæðum, stríðni, gamansemi, útúrsnúninga til að gleðjast yfir en líka hvernig mamma/pabbi/makinn hefði hughreyst, hvaða gæluorð hún/hann notaði, hvernig hún/hann tjáði fjölskyldunni ást sína og væntumþykju.

 

Svona gera ljónshjörtu

  • Ekkill með þrjú börn:
    Við rifjum oft upp minningar og tölum mikið. Við erum að gera minningarbækur, eina fyrir hvert okkar. Þar eru meðal annars frásagnir frá vinum konunnar minnar, myndir síðan bæði áður og eftir að ég kynntist henni og myndir af henni með börnunum. Stundum skoðum við saman myndbönd og förum á staði sem voru í uppáhaldi hjá henni, t.d. á afmælideginum hennar eða einhvers okkar.
  • Ekkja með unga dóttur auk uppkominna barna:
    Ég notaði forrit á netinu til búa til myndabók um sögu okkar saman. Í bókinni eru myndir af manninum mínum og börnunum allt frá upphafi. Ég reyndi að velja sem flestar af honum með börnunum. Við getum flett þessu saman og rifjað upp minningarnar sem tengjast myndunum. Á fyrsta dánarafmælinu hafði ég opið hús og bauð vinum og ættingjum heim í gegnum viðburð á Facebook og lét bókina ganga á milli gestanna til að opna fyrir samræður um manninn minn og það hafði mjög góð áhrif. Ég legg mig líka fram um að minna dóttur okkar á ýmis konar orðatiltæki hans og venjur. Fyrir stuttu var mér líka bent á að það væri góð leið til að skapa samræður um minningar að spyrja hvert annað: Hver er skemmtilegasta minningin þín um pabba?
  • Ekkja með þrjú börn:
    Ég bjó til kassa handa hverju og einu okkar fyrir góðu minningarnar og hluti sem kalla fram góðar tilfinningar. Í raun er hann fyrir allar góðar minningar en dót sem minnir á pabba er fyrirferðamikið. Hann er stundum kallaður geðræktarkassi og við veljum sjálf allt sem fer í hann. Ég ætla líka að prenta út myndir til að setja í kassana.
  • Ekkja með tvö börn:
    Á hverju ári hef ég minningarstund á afmælisdegi mannsins míns. Þá býð ég öllum vinum hans, úr öllum áttum, heim til mín. Allir koma með eitthvað á sameigininlegt borð og eitt útikerti. Gestirnir kveikja á útikertum og raða þeim fallega upp þannig að við erum með mjög mörg kerti sem lýsa upp húsið. Allir setja minningu, t.d. eina setningu, mynd eða jafnvel eitt orð, og setja í hatt sem maðurinn minn átti. Eftir matinn draga allir miða úr hattinum og lesa upp minninguna eða orðið eða sýna myndina.
  • Ekkja með eitt barn:
    Við maðurinn minn gengum mikið saman á fjöll og það var hann sem kom mér á bragðið með það. Ég hef haldið gönguferðunum áfram og úr hverri göngu tek ég með mér stein sem ég set á leiðið hans. Þannig fær hann hlutdeild í gönguferðunum og lífi mínu um leið. Oftast finn ég hjartalaga stein, hvort sem það er nú tilviljun eða ekki.
  • Ekkja með eina unga dóttur og tvær uppkomnar:
    Maðurinn minn var áhugaljósmyndari og skildi eftir sig tugi þúsunda mynda. Margar þeirra hanga á veggjunum hjá okkur en við erum að vinna í að gera meira úr þessu og setja myndir eftir viðfangsefnum upp á völdum stöðum í húsinu. Við hlustum á tónlistina hans og horfum á myndir og þætti sem voru í uppáhaldi hjá allri fjölskyldunni. Eldri dæturnar nutu þess að hafa pabba sinn lengur hjá sér en sú yngsta en þær miðla minningunum áfram þannig að hún getur gert þær að sínum með því að rifja upp tilsvör hans og lesa fyrir hana bækurnar sem hann las fyrir þær og segja henni sögurnar hans og þess háttar. Myndabók fyrir hverja okkar og minningakistill eru í vinnslu samhliða myndaúrvinnslunni.