Fyrstu skrefin eftir andlát

Þegar maki fellur frá þarf sá sem eftir lifir að byrja strax að huga að ótrúlega mörgum þáttum. Ekkja ein orðaði það svo að hún hefði nýverið orðið fyrir stærsta áfalli lífsins og þar með væri henni umsvifalaust hent út í viðburðastjórnun. Það er mikið til í því.

Eins erfitt og það getur verið og svo undarlega sem það hljómar þá hjálpa öll þessi verkefni til við að halda fókus og komast í gegnum fyrstu dagana. Á sama tíma er erfitt að henda reiður á hugsununum og halda utan um verkin sem þarf að vinna og því er gott að fá einhvern sem maður treystir vel til þess að hjálpa sér við stjórnunina. Talaðu við systkini þitt eða makans, foreldri annars hvors ykkar eða góðan vin eða vinkonu. Það er gott að hafa einhvern með sér við að fara í gegnum alla pappírsvinnuna og á alla staðina sem þarf að fara á.

Þótt það sé mikið að gera og þú eigir fullt í fangi með það allt og erfitt sé að einbeita sér að því öllu er mikilvægt að muna eftir börnunum. Börnum á öllum aldri getur þótt gott að fá að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd útfararinnar. Þau geta tekið þátt í að velja tónlistina, útbúa sálmaskrá og jafnvel hjálpað til við að velja legstein þegar þar að kemur.

Útför Dánarvottorð Fjármál Lífeyrismál