Hugleiðingar

Brostið hjarta getur breyst í stærra hjarta

Þetta litla hjarta okkar sem þarf að rúma svo margt og mikið.
Lengi eftir slysið fannst mér fráleitt að ég gæti nokkurntíma hleypt einhverjum inn í hjarta mitt aftur, en…

Eins og þegar nýtt barn kemur inn í líf þitt. Í nokkur ár átti ég eitt barn sem ég elskaði og dáði og fannst nánast óhugsandi að ég hefði rúm fyrir annað. En, eins og gengur varð ég aftur ólétt og þá hafði ég mestar áhyggjur af því að nýja barnið fengi aldrei jafn mikla ást og það fyrsta, hélt einfaldlega að ég gæti ekki elskað annað barn jafnmikið.

Svona getur maður verið vitlaus ;).

Auðvitað var ást mín á nýja barninu engu minni eða síðri en á því fyrsta. Hjartað rúmar svo ótrúlega mikið. Við verðum hins vegar að gefa því séns. Við þurfum að opna fyrir meira rými og það er hægara sagt en gert.

Ég var brotin, ég var reið, ég barðist við að halda lífi og standa mig í foreldrahlutverkinu. Það var yfirdrifið nóg. En samt kom tómleikinn og einmanaleikinn og örvæntingin og allt þetta sem þið þekkið.

Það tók mig langan tíma að gefa sjálfri mér séns á að elska aftur. Trúið mér, það hefur tekið ár og daga að treysta og átta sig á því að hjartað hefur þessa dásamlegu eiginleika, að geta elskað meira, og alveg eins og það býr til rúm fyrir nýtt barn getur það líka búið til rúm fyrir nýjan maka og það án þess að halla á hvorugan.

Sorglaus ævi er engum tryggð

Fyrir tveimur árum eða þann 20. september 2013 fór ég í gegnum áfall sem setti líf mitt og fjölskyldunnar algjörlega á hvolf. Allar ákvarðanir um framtíðina féllu þennan dag og ég þurfti að skoða allt upp á nýtt. Ekkert var lengur eins og áður. Lífið hafði ekki komið á óvart, það hafði slegið mig til jarðar. Sum verkefni velur maður sér í lífinu. Sum verkefni koma eins og miskunarlaus svipa yfir líkama og sál sem maður getur reynt að víkja sér undan en dynja samt á manni þannig að sár myndast. Ég á þá sáru lífsreynslu að missa manninn minn í sjálfsvígi þennan dag.

Það er verkefnið mitt á hverjum degi að lifa við að hafa haldið á ástinni minni lífvana í fanginu þennan örlagaríka dag og skilja að þetta er blákaldur raunveruleiki. Ég veit að engin sjálfsmorðingi vill deyja en hann telur að það sé lausn fyrir alla sem elska hann að láta sig hverfa úr þessu lífi. Það er óendanlega sárt af því að þessari ákvörðun fylgir svo lamandi og sársaukafull líðan. Við sem eftir lifum förum í gegnum flóknar og erfiðar tilfinningar og engin leið er möguleg nema að bjóða þær allar velkomnar til að geta kvatt þær sem eru sárar og jafnvel vondar. Það er skrítið að segja þetta en það er satt.

Ástin sem ég ber til hans er ekki minni en hún var meðan hann lifði, það er bara svo flókið að þurfa að fara í gegnum allar hinar tilfinningarnar til að geta fengið að dvelja í ástinni og þakklætinu fyrir að hafa fengið að elska og eiga samleið. Enginn sem missir ástvin með þessum hætti hefði viljað fara á mis við það að elska og tengjast. Mitt verkefni er að muna að ég var elskuð og ég elskaði. Það er sú tilfinning sem ég má aldrei gleyma, annars er ekki hægt að komast yfir allan þennan sársauka.

Ég má ekki leyfa tilfinningum eins og skömm, reiði eða vanmætti að yfirskyggja líf mitt og minninguna um dýrmætan og dásamlegan mann sem vakti með mér allt það besta sem býr í sál minni. Það er nauðsynlegt að leyfa ekki angistinni að eiga lokasvar heldur allar þessar góðu stundir sem enginn getur tekið frá mér, ekki einu sinni dauðinn sjálfur.

Mitt verkefni er að halda á lofti innra með mér öllu því góða og heilaga sem við áttum saman og enginn getur efast um það eða tekið það frá mér. Ef við viljum lifa ævi án sorgar verður við að gjalda fyrir það með því að elska ekki. Allir sem elska finna til. Ég veit líka að sorglaus ævi var engum tryggð og þess vegna er það mitt verkefni að halda áfram og fylla tómið í brjósti mér með trú, von og kærleika. Trúnni á hið góða, vonina um betri daga og kærleika fyrir öllu sem lifir og minningunni um manninn minn sem er farinn í sumarlandið og ég sakna endalaust.

Afmælisdagur og dánardagur

Í dag eru 2 ár síðan maðurinn minn kvaddi og um leið á dóttir okkar 13 ára afmæli. Hún vildi ekki halda uppá afmælið sitt í dag en ég hvatti hana til að halda uppá daginn í dag þar sem allir eru í vetrarfríi. Hún ætlaði að hugsa málið og ákvað svo að bjóða vinum sínum heim. Ég var mjög glöð, veit ekkert hvort það var rétt eða rangt af mér en mér finnst bara svo mikilvægt að hún upplifi sinn afmælisdag sem gleði dag ekki sorg – að það megi gleðjast á þessum degi. Þegar ég var að ræða þetta við hana í vikunni þá varð ég pínu reið út í pabba hennar að hafa farið á þessum degi, gat hann ekki valið annan dag. Svona er maður skrítinn.

Minningarstund

Mig langar að segja ykkur frá möguleika sem þið getið gert ef þið treystið ykkur til. Ég veit ekki hvort að þetta sé venja yfir höfuð en það var að koma að þessum skelfilega 1 árs degi, ég vissi bara að ekki væri gott að vera ein eða fela sig. Ég fékk í raun skyndihugdettu, datt í hug að halda minningarstund í kirkjunni sem maðurinn minn var jarðsunginn í. Talaði við fjölskyldu hans og spurði hvort þau væru til í að hittast og eiga stund saman þennan erfiða dag. Ég fékk prestinn til að lána okkur litlu kapelluna og hann var svo yndislegur að kveikja á kertum út um allt. Fékk systur mína og mág til að spila lögin sem voru í jarðaförinni, skellti líka á tónlistinni sem tengdist honum á einhvern hátt á ipodhátalarann. Við vorum örfá – bara allra nánasta og rétt um 40 mínútur. Og þarna í þennan stutta tíma gátum við speglað allt þetta ár, grétum heil ósköp föðmuðumst og leyfðum minningunum að streyma. Þetta var rosalega heilandi og ég fann að ég hafði öðlast eitthvað nýtt til að halda áfram. Ástvinur þinn býr í hjartanu eftir allt saman og minningin dvelur þar og verður aldrei frá þér tekin. Þessi stund gerði svo mikið fyrir mig og vera umkringd þeim sem deildu sama hjarta gagnvart ástinni minni var ómetanlegt. Ég vona að þessi hugmynd geti reynst ykkur hinum sem eru að fara koma að þessu ömurlega degi sem breytti manni til eilífðar. Ástvinur þinn mun lifa ef þú heldur áfram að lifa.

Hann er dáinn, ný dáinn en samt er komið ár

Hann vaknaði þennan örlagaríka dag og sagði ,,bíddu bíddu er ég ekki dauður ?
En ég er búinn að hóa í alla og kveðja ?

Um nóttina skammaði hann mig og systur sínar. Við héldum að hann svæfi og vorum eitthvað að tala (mjög lágt) og þá heyrðist ,,nenniði að þegja, það er maður að reyna deyja.” SVARTUR HÚMOR, hann hafði svartasta humor í heimi og ég elskaði það. Hef aldrei hitt fyndnari og skemmtilegri mann. Hann er samt ekki á stalli. Þeir sem að þekktu hann vita að hann gat líka verið erfiður og þá sérstaklega við mig. Hann var bara eins og hann var. Minn besti vinur sem ég sakna endalaust. Sá eini sem fékk mig til að hlæja almennilega. Þegar að við lágum hjá honum síðustu stundina, öll fjölskyldan og bróðir hans rétti okkur Tuborg bjór og sagði þessa gullnu setningu ,,Tuborg við öll tækifæri” en maðurinn minn hló ekki. Þá vissi ég að hann var farinn, kæmi ekki aftur og ætti bara eftir að taka síðasta andardráttinn. Þannig var það, við vorum öll hjá honum og hann tók síðasta andardráttinn. Við sturluðumst ekki úr sorg. Tilfinningin sem kom var léttir. Ég var glöð, glöð yfir því að hann þurfti ekki að berjast við veikindin lengur. Hann barðist fyrir lífinu en tapaði. Nú barðist hann fyrir dauðanum og vann. Hann fékk að deyja. Þetta er kalt en þetta er satt. Hann vildi ekki lifa lengur í svona ástandi. Ég vildi ekki að hann lifði lengur í svona ástandi. Hann gat ekkert gert. Gat ekki faðmað mig né börnin, æxlið var farið að þrýsta á ákv. stöðvar sem höfðu áhrif á persónuleikann. Það komu upp stundir þar sem við þekktum hann ekki og ég er fegin að börnin mín upplifðu ekki þær stundir. Hann fékk að deyja áður en það gerðist. Dauðinn er ekki alltaf verstur.

Vandræðagangurinn í kringum dauðann

Sonur minn verður sjö ára gamall í sumar. Pabbi hans, sem andaðist þegar barnið var 13 mánaða gamall, er alltaf með okkur í anda. Ég spjalla oft við hann – ræði lífsins nauðsynjar og segi minningu hans (ég tala út í loftið, já, ég geri það bara með kaffibolla í hönd!) brandara úr hversdeginum.
Einu er ég samt orðin örþreytt á – ég bý í Noregi (og myndi varla skipta máli þó ég byggi heima á Íslandi) og það eru spurningarnar.
Ég er einhleyp og hef engar “ömmur eða afa” í útlandinu – ég hef ekki aðgang að helgarpössun og það er bara allt í lagi. Svona búum við bara, ég og barnið mitt. En það eru spurningarnar: “Já, og þú færð auðvitað helgarpössun?” … “Já, er pabbi hans þá norskur?” … “Er barnið í sambandi við föður sinn?” Og hverju á ég að svara? Hvað á ég að gera?
Mér finnst í sjálfu sér ekki óþægilegt að segja frá því að pabbi hans sé dáinn, en ég vildi óska þess að svona mikil spéhræðsla ríkti ekki kringum dauðann. “Ó, ég samhryggist þér svo innilega” kemur yfirleitt í kjölfarið, rakt og væmið augnaráð (jafnvel frá fólki sem ég þekki ekki neitt) og svo ríkir bara vandræðaleg þögn. “Hvernig dó hann?” fylgir stundum í kjölfarið og ég neyðist til að svara: “Hann andaðist í svefni.” Ég hef jafnvel fengið að heyra … “Já ok? Fékk hann þá hjartaáfall eða?” Og þetta getur valdið miklum óþægindum. Ef ég segist “ekki vilja ræða þetta frekar” þá er samtalinu lokið.
Engin leið að snúa sér aftur að tali um útsölur eða sumarið. Eða gróðurinn og rigninguna. Hversu oft mig hefur ekki bara langað að fá mér kaffibolla með annarri fullorðinni manneskju … mér hefur jafnvel dottið i hug að ljúga og segja bara: “Nei nei, hann býr á Íslandi og barnið fer reglulega í heimsókn til hans” … bara til að smjúga undan forvitnum augum.
Næst skáskýtur fólk augunum á barnið og segir … ekkert. Því næst kemur spurningin: “Já, og ertu þá alveg ein?” Og það er alveg sama hvernig ég reyni að snúa mig út úr framhaldinu … alltaf skal samúðin og hluttekningin, vorkunsemin og “velviljinn” loða við samtalið úr því sem komið er. Því næst skynja ég hvernig fólk dregur sig til baka og ég heyri jafnvel ekki frá viðkomandi aftur. Ég er orðin SVO ÞREYTT á þessu. DROTTINN MINN, hvað ég er orðin örþreytt!
Mitt nýjasta útspil hefur einfaldlega verið að segja beint út:“Það liggur fyrir okkur öllum að deyja – barnsfaðir minn fór bara fyrr en honum var ætlað.”
Hvað annað get ég sagt?

Upp í kirkjugarð með börnin

Ég fór með krakkana upp í kirkjugarð að setja blóm á leiðið. Þau höfðu valið blóm sjálf og við röðuðum þessu niður á leiðið saman.
Fyrst þurfti ég nú að múta eldra barninu til að koma með, því finnst hundleiðinlegt að fara í garðinn. Skiljanlega. Og það er líklega bara ein af aðferðum barnsins við að tjá sorg sína. Yngra barnið er alltaf viljugt að koma með, en ég finn alveg hvað það verður tættari í skapinu eftir á.
En það sem hefur gert mig bitra og reiða er það að þetta á allt að vera svo fallegt…og maður á að vera svo þakklátur, fyrir aðstoð, fyrir tímann sem við fengum með honum…og ég veit ekki hvað og hvað. En mér finnst bara ekkert fallegt við að hafa „þurft“ að sinna þessu verkefni, og hvað þá að hafa börnin með í því. Mér finnst ljótt af mér að segja þetta, en svona leið mér í dag og líður enn.

Hamingjuríkur dagur

Í gær upplifði ég í fyrsta sinn fullkomna hamingju eftir að maðurinn minn dó. Ég og elsta dóttir mín fórum á rúntinn, vorum að versla slatta þannig að ég þurfti að nota allt aftursætið undir dót. Þannig að hún fékk að sitja frammí hjá mér í fyrsta sinn (slökkti bara á loftpúðanum). Hún var svo glöð að fá að vera þarna frammí með mér. Hún spurði mig hvað allir þessir takkar þýddu og svona. Svo fann hún Pál Óskar geisladisk og við settum hann í tækið og hækkuðum vel, rúntuðum og sungum, skemmdi ekki fyrir hversu gott veður var.
Ég hef ekki upplifað svona hamingju síðan 1. nóvember 2012 – þetta var fullkominn dagur.

Er ég læknuð ?

Það er svo sérstakt að um leið og ég eignaðist kærasta virðist fólk halda að nú sé allt orðið okey og ég sé læknuð.
,,Hjúkket, við þurfum ekki að hafa áhyggjur af henni og hennar líðan lengur, hún er komin með kærasta” Það er bara ekki svo einfalt. Að eignast nýjan ástvin eftir að hafa misst þann sem var þér afar kær er mjög erfitt. Söknuðurinn hverfur ekki og þú hættir ekki að elska. Þetta er eins og að missa barn og eignast annað barn. Þú elskar barnið sem þú misstir og líka barnið sem þú varst að eignast. Ekki halda að við læknumst. Við lærum að lifa á nýjan leik og með sorginni okkar. Við getum orðið ástfangin á ný en við munum aldrei gleyma þeim sem við misstum.

Einmanaleikinn

Þetta er 8. sumarið sem ég er án míns besta vinar og eiginmanns! Sum hafa verið erfiðari en önnur en alltaf hef ég haft það að leiðarljósi að njóta tímans með gleðina að vopni og þar sem ég er umvafin góðum vinum og fjölskyldu hefur það tekist á fullkominn hátt. Ég er ennþá ein á báti og hef haldið því þannig því ég trúi því að þessi stutti tími sem maður hefur börnin hreinlega í „fanginu“ er dýrmætur og kemur ekki aftur. Ég hef einbeitt mér að því að vera með þeim, svo stækka þau og fara að verja meiri tíma með vinum og þá er stutt í einmanaleikann og spurningarnar hrannast upp hjá mér. Ætli ég verði alltaf ein? Finn ég aldrei þann rétta? Vegna þess að allt hefur gengið vel hjá mér er fólk löngu farið að hætta að halda utan um mig þannig séð, trúir því að ég sé bara „fín“ og óþarfi að vera að hafa áhyggjur af mér! Ég geri svo sem ekkert sjálf sem gæti breytt þessari stöðu, ekki fer maður niðrá torg og gargar að maður sé nú á lausu og væri til í að prófa eins og eitt deit eða svo! Hvernig sjáið þið þetta kæru vinir?

Klisjur

Einn dagur í einu, lifa í augnablikinu, njóta stundarinnar, tíminn læknar sárin.
Það er svo skrítið hvernig þessar málsgreinar hættu að vera bara orð á blaði og urðu að veruleika. Í fyrsta sinn upplifi ég og skil þessar klisjur en þetta eru ekki klisjur lengur fyrir mér þetta er sannleikur.
Það er svo gott að kunna að meta lífið, augnablikið, börnin, fjölskylduna og öll litlu smáatriðin svona djúpt og á nýjan hátt. Sorgin, missirinn og reynslan gaf mér þetta og ég er þakklát fyrir það.

Söknuður

Konan mín hefði orðið fertug í dag. Skrýtnir þessir dagar. Þeir eru samt hættir að vekja hjá mér sárari söknuð en venjulega og verður söknuðurinn bærari og bærari með hverju árinu. Þessir dagar verða samt aldrei venjulegir, heldur sveipaðir minningum, ást og hugsunum.. Jafnvel smá dulúð sem stafar af pælingum um hvar hún er. Well, ég veit ekki hvar hún er, en ég horfi stundum til stjarnanna og ímynda mér að blikið í þeim sé blikk hennar til mín. Blikk sem segir að þetta verði allt í lagi. Og ég blikka á móti, stundum…
Huggun og hamingja, mín kæru – njótum hverrar mínútu, sekúndu og lifum.

Litlu skrefin

Það er svo margt í þessu sorgerferli sem samfélagið gerir sér enga grein fyrir. Þeir sem hafa ekki verið í okkar stöðu átta sig engan veginn á öllum litlu skrefunum sem við þurfum að taka og geta verið svo erfiðir en eru um leið miklir sigrar.
Það tók mig t.d. langan tíma að taka tanburstann hennar úr glasinu. Pakka fötunum hennar og gefa þau sem ég ætlaði ekki að eiga. Prenta út myndir fyrir börnin, prófa að sofa á hennar helming í rúminu. Erfiðast var að taka niður giftingarhringinn. Allt þetta tókst og gerði ég það á mínum hraða og á minn hátt. Ég er sáttur við allar ákvarðanirnar sem ég hef tekið og þakklátur fyrir hugmyndirnar og ráðin sem ég hef fengið frá fólki sem deilir minni stöðu. Ég hef t.d. ákveðið að láta bræða giftingarhringana okkar saman og gefa börnunum hálsmen úr þeim í fermingargjöf.

Tengdó 1 og tengdó 2

Lífið er gott og ég er einstaklega rík. Hver hefði getað trúað því að dæmið gæti gengið svona vel upp. Ég missti manninn minn og ætlaði aldrei að eignast annan mann. Var fullkomlega fær um að vera ein og staðráðin í því að þannig skyldi það vera og öll mín orka og athylgi færi bara í börnin.
Ástin bankaði uppá, hver hefði getað trúað því ? Ekki ég. Ég kynntist yndislegum manni sem ber mikla virðingu fyrir manninum mínu sem er látinn og mínu lífi og barnanna áður en hann kom til sögunnar. Hann hefur sýnt mér fullan stuðning og skilning í minni sorg og er alltaf til staðar á erfiðum dögum. Það besta við þetta allt saman er að ég á tvær yndislegar tengdafjölskyldur sem hittast reglulega hjá okkur og samgleðjast okkur fjölskyldunni. Foreldrar mannsins míns sem er látinn hafa tekið kærasta mínum einstaklega vel. Knúsa hann og kyssa og koma fram við hann eins og tengdason en við mig eins og sína eigin dóttur. Það finnst mér notalegt.