Sérstakir dagar

Á hverju ári eru minningar merktar inn á dagatalið. Hátíðir eins og jól og páskar, brúðkaupsdagur, afmæli, fermingardagur og fleiri dagar reynast erfiðir þegar ástvinur hefur fallið frá. Þessir gildishlöðnu dagar fá allt annað yfirbragð af því að nú þarftu að halda þá án þess sem þú elskaðir. Mörgum sem hafa misst náinn ástvin finnst hátíðisdagar einna erfiðastir. Þá er söknuðurinn oft mestur. Sorgin verður átakanlegri og einsemdin dýpri. Á hátíðum viljum við vera með okkar nánustu, fólkinu sem við elskum. Hátíðir eru tími fjölskyldunnar. Við kvíðum þessum dögum og sárar tilfinningar koma aftur upp á yfirborðið. Við veltum fyrir okkur hvernig í veröldinni við eigum að komast í gegnum þessa daga þegar maki okkar er fallinn frá. Á slíkum dögum er gott og nauðsynlegt að leita til annarra eftir stuðningi.

Þú getur búið þig undir þessa daga með ýmsum hætti.

 • Skipuleggðu fram í tímann. Taktu þér frí frá daglegu amstri taktu þann tíma sem þú þarft til að syrgja það að maki þinn er ekki hjá þér á þessum tiltekna degi.
 • Veldu þann félagsskap sem þú vilt vera í þennan dag. Ef til vill viltu vera með einhverjum sem hefur verið í þínum sporum frekar en öðrum. Þú getur ákveðið þetta alveg sjálf/ur.
 • Ekki bíða eftir að aðrir muni eftir dögunum sem þú kvíðir. Hringdu heldur í þá sem þú vilt hafa með þér og minntu þá á. Þín sorg er ekki sorg allra í kringum þig og því ekki víst að þeir muni eftir henni. Þetta er rétti tíminn til að hringja í þá sem buðu fram aðstoð. Talaðu bara skýrt og segðu hvað það er sem þig vantar.
 • Gerðu það sem þú telur skipta máli fyrir þig þennan dag. Á afmælisdegi á ekki síður við að fagna lífi ástvinar þíns en að minnst dauða hans. Það má til dæmis gera eitthvað sem þið hefðuð gert saman. Þú getur líka samið nýja minningargrein þar sem þú tekur saman minningarnar, lýsir útliti, fasi og mikilvægum eiginleikum hins látna.
 • Ef það er einhver eftirsjá, eitthvað sem var ósagt eða óleyst mál sem valda hugarangri, hugleiddu þá hvort það gæti hjálpað að skrifa bréf eða tala við einhvern sem þú treystir.
 • Rifjaðu upp minningar. Taktu fram myndirnar, ástarbréfin, allt sem minnir þig á maka þinn. Kallaðu upp í hugann allar gleðistundirnar og erfiðu stundirnar, allt sem myndaði ykkar fallega samband. Þetta getur verið sársaukafullt til að byrja með, en með tímanum fylla þær hugann af þakklæti og hlýju, þú verður þakklát/-ur fyrir það sem þú áttir.
 • Ef til vill hjálpar að lesa aftur samúðarkortin og skeytin sem bárust eftir fráfall maka þíns til að minna þig á að þú ert ekki ein/-n. Það er fólk í kringum þig sem vill þér vel og er tilbúið að hjálpa.
 • Gefðu þér tíma til að horfa fram á veginn. Þótt þú syrgir það liðna skaltu samt reyna að gleðjast yfir deginum í dag. Farðu í huganum yfir allt það góða sem þú átt, hugsaðu til fólksins sem er partur af lífi þínu í dag.
 • Láttu þig dreyma um góða hluti. Skipuleggðu eitthvað eitt (stórt) sem þig langar að gera í náinni framtíð, hvort sem það er ferðalag, að endurskipuleggja heimilið, skipta um vinnu eða eitthvað allt annað.
 • Hittu vini, lestu góða bók, taktu til í skápnum þínum, farðu í göngutúr eða horfðu á góða bíómynd. Eitthvað sem þú vilt gera sem gerir þér gott.

Hátíðisdagar gefa þér tækifæri til að líta yfir farinn veg, sjá hvert tími og aðstæður hafa leitt þig, draga af því lærdóm og ekki síður að horfa fram á veginn. Og þó ekki væri annað þá minna þeir þig á að þú ert þó komin/-n þetta langt og það er í sjálfu sér næg ástæða til að halda daginn hátíðlegan.

Ef til vill getur eitthvað af þessu verið hjálplegt á erfiðum stundum.

 • Þegar tilfinningarnar hellast yfir þig skaltu leyfa þeim að koma og ekki loka á þær
 • Tjáðu þig. Segðu fjölskyldu þinni og vinum hvað þú treystir þér í hverju sinni.
 • Mundu að allt er breytt og hátíðir verða ekki eins og þær voru. Ef þig langar ekki til að halda í hefðir sem þið maki þinn áttuð skaltu bara sleppa því. Leyfðu þér að gera hlutina eftir þínu höfði.
 • Skipuleggðu dagana fyrirfram. Þá veistu hvað er framundan og getur þannig komið í veg fyrir streitu og jafnvel fengið á tilfinninguna að þú hafir einhverja stjórn á aðstæðum. Vertu með plan A og plan B.
 • Þú gætir íhugað að komað þér upp nýjum hefðum, til dæmis að minnast maka þíns og heiðra hann með einhverjum hætti á hátíðisdögum.
 • Fjölskyldan ætti að tala um hinn látna á hátíðum, segja af honum sögur eða minnast hans með öðrum hætti.
 • Vertu vinur þinn, ekki vera of hörð/harður við sjálfan þig.
 • Það má alveg fresta hátíðahöldum, þessir dagar koma aftur að ári. Þú mátt ákveða hvað er best fyrir þig. Þú mátt líka skipta um skoðun, oft ef þú vilt. Það er eðlilegt að finnast eins og maður eigi aldrei aftur eftir að njóta hátíðiðsdaga. Þessir dagar verða heldur aldrei eins og þeir voru. En flestir finna leiðir til að njóta hátíða aftur, með nýjum hefðum og gömlum.
 • Farðu vel með þig.
 • Ekki gera meira en þú treystir þér til.
 • Leyfðu öðrum að hjálpa þér og aðstoða. Við þurfum öll stuðningi í gegnum erfiða tíma.

Textinn er tekinn saman úr eftirtöldum greinum á netinu: Grief and the Holidays, Dealing With Difficult Days, og Happy Holidays.