Missir

Dauðinn og sorgin eru tabú.

Fæstir búast við því að missa maka sinn fyrr en á elliárum. Ástvinamissir á unga aldri er okkur flestum mjög fjarlæg hugsun. Á árum áður, þegar lífaldur fólks var lægri, var dauðinn hluti af daglegri tilveru. Fólk lá fyrir dauðanum heima fyrir og fjölskyldan öll tók þátt í umönnun og undirbúningi fyrir það sem koma skyldi. Síðustu áratugi hafa dauðvona sjúklingar nær undantekningarlaust verið fluttir á sjúkrahús og þar með horfið úr augsýn samfélagsins. Dauðinn og sorgin hafa með tímanum orðið æ meira einkamál; í rauninni tabú sem við óttumst og kunnum ekki að takast á við. Þar af leiðandi erum við engan veginn undirbúin fyrir að lenda í slíku áfalli sem makamissir er, síst af öllu í blóma lífsins. En öll getum við átt von á því að missa nákominn einstakling á hvaða aldursskeiði sem er. Með því að opna umræðuna um dauðann og sorgina, deila upplifun okkar og þiggja aðstoð erum við á réttri leið.

Leiðin sú getur verið skrykkjótt og erfið yfirferðar en þú kemst hana á enda og finnur frið á ný. Sorgin, jafnsár og hún er, felur einnig í sér gjafir og sú stærsta er samkenndin sem við sem höfum misst ástvin finnum nú til með öðrum. Við öðlumst líka dýpri skilning á mikilvægi þess að njóta hvers dags sem okkur er gefinn og skynjum fegurð lífsins sterkar en áður.

Að missa mömmu eða pabba Að missa maka