Að missa maka

Að missa maka sinn er eitt mesta áfallið sem hægt er að verða fyrir á lífsleiðinni. Með makanum missum við um leið okkar besta vin, elskhuga, barnsföður/móður, lífsförunaut og sálufélaga. Hvernig á að halda áfram með lífið þegar hinn helmingur manns er farinn? Í raun syrgjum við okkur sjálf um leið og við syrgjum maka okkar – við syrgjum þá veröld sem við áttum saman sem par og hlutverk okkar sjálfra í lífi þess sem dó og hvarf við andlátið. Fagleg aðstoð, tíminn, fjölskyldan, vinir og – kannski einna mikilvægast – einstaklingar í svipaðri stöðu eru flestum besta hjálpin. Hvers konar tilfinningar sem upp koma eiga rétt á sér og við verðum að leyfa þeim að koma því þær eru mikilvægur þáttur í sorginni. Þér líður eins og það hafi orðið heimsendir. En það varð ekki heimsendir. Lífið heldur áfram. Sorgin kemur í bylgjum en smám saman verða góðu dagarnir fleiri en þeir erfiðu og þér fer að líða betur, hægt og rólega. Það er auðvitað eins misjafnt og við erum mörg hvað þetta ferli getur tekið langan tíma; leiðin sem þú finnur í gegnum þína sorg er sú rétta fyrir þig.

Við syrgjum öll á mismunandi hátt

Ári eftir dauða náins vinar skrifaði Teryn O´Brien, vinsæll bloggari, pistil um það sem hún hafði lært um sorgina undir yfirskriftinni 15 Things I Wish I‘d Known About Grief. Pistillinn fór um netið á methraða og hundruð syrgjenda bættu við hann athugasemdum um eigin reynslu. Eftirfarandi endursögn pistilsins er fengin af vefsíðunni Heilsutorg.com:

Við syrgjum öll á mismunandi hátt

Sorgin getur komið yfir okkur eins og öldur. Þú ert í lagi eina stundina en alveg niðurbrotin/n þá næstu. Í lagi í einn dag en ekki þann næsta. Nærð svo mánuði þar sem þú ert í lagi en svo kemur annar og þá líður þér aftur illa. Lærðu að fylgja flæði hjarta og hugar. Að því kemur að þér líður vel í langan tíma í senn.

Opna listann

  • Það er í lagi að gráta. Gráttu oft. Það er líka í lagi að hlæja. Ekki fá samviskubit yfir jákvæðum tilfinningum og skemmtilegum stundum þó þú sért að eiga við erfiðan missi.
  • Mundu að hugsa vel um sjálfa/n þig, jafnvel þó þér líði illa og finnist það tilgangslaust. Borðaðu hollan mat og farðu í ræktina. Gerðu það sem þér finnst skemmtilegt. Mundu að þú ert enn lifandi.
  • Alls ekki loka á fólk. Ekki loka þig af og slíta sambandi við þína nánustu eða bestu vini/vinkonur. Með því særirðu sjálfa/n þig og aðra.
  • Það mun enginn bregðast við þinni sorg á fullkominn hátt. Fólk, jafnvel fólk sem þú elskar, gæti brugðist þér. Margir eiga mjög erfitt með að horfast í augu við sorg annarra og upplifa vanmáttinn sem því fylgir. Vinir sem þú áttir von á að væru þér innan handar eru ekki til staðar og fólk sem þú þekkir varla mun senda þér samúðarkveðjur. Búðu þig undir að þurfa að glíma við sársauka vegna þess hvernig aðrir bregðast við sorg þinni og fyrirgefa þeim.
  • Taktu þér góðan tíma í að virkilega muna eftir manneskjunni sem þú misstir. Skrifaðu um hann eða hana, hugsaðu um allar góðu minningarnar og baðaðu þig upp úr öllum þeim frábæru og góðu stundum sem þið áttuð saman. Það hjálpar.
  • Að horfast í augu við sorgina er betra en að hundsa hana. Ekki fela þig fyrir sársaukanum. Ef þú gerir það mun sorgin verða enn sárari en ella og hætta er á að þú eigir erfiða tíma framundan.
  • Þú átt eftir að spyrja ,,hvers vegna?“ oftar en þú hélst að væri mögulegt. En þú færð sennilega aldrei svar við þeirri spurningu. Það getur verið hjálplegra að spyrja ,,hvernig?“ Hvernig get ég lifað mínu lífi til fullnustu og heiðrað minningu þess sem ég missti? Hvernig get ég elskað betur, hvernig get ég sýnt öðrum mína væntumþykju, hvernig get ég leyft þessu að breyta mér og þroska mig?
  • Þú átt eftir að reyna að flýja sorgina með því að vera upptekin/n, alltof upptekin/n. Þú átt eftir að halda að ef þú hugsir ekki um missinn að þá muni sorgin hverfa. Þannig er það alls ekki. Allir þurfa að taka sinn tíma í að syrgja og lækna brostið hjartað.
  • Það er í lagi að biðja um hjálp. Það er í lagi að þarfnast fólks. Það er í lagi, það er í lagi, já, það er sko í lagi.

Veikindi maka

Sumir segja að langvarandi veikindi ástvinar búi aðstandendur að einhverju leyti undir dauða hans. Að sjálfsögðu er það eins misjafnt og mennirnir eru margir. Í raun er mjög erfitt að vera undirbúinn fyrir það áfall að missa maka sinn enda útilokað að búa sig til fulls undir eitthvað sem maður þekkir ekki og hefur aldrei upplifað áður. Allt í kringum sjúklinginn er fólk sem einnig þarf hjálp og því miður er það svo að nánustu aðstendur þurfa yfirleitt að sækja sér hana sjálfir. Því er um að gera að nýta sér það sem í boði er hjá fagfólki eins og sálfræðingum, prestum og ráðgjöfum. Ekki vera hrædd við að biðja um aðstoð. Mjög gott getur reynst að leita til þeirra sem hafa verið í svipaðri stöðu því þar er skilning og samkennd að finna og flestum finnst gagnlegt að sækja samveru fyrir syrgjendur hjá félagasamtökum. Eftir andlát makans þurfa margir að gera upp veikindin og þá er algengt að ýmsar erfiðar tilfinningar brjótist fram, eins og reiði, sektarkennd og sjálfsásakanir. Einnig getur verið erfitt að sætta sig við vanmáttinn sem læðist aftan að manni; tilfinninguna um að hafa ekki fengið við neitt ráðið og að sjúkdómurinn hafi tekið öll völd. Þeirri kennd hefur verið líkt við að maður hafi orðið fyrir sjálfræðissviptingu. Við verðum að trúa því og treysta að við höfum gert allt sem í okkar valdi var og tekið sem réttastar ákvarðanir. Misstu ekki vonina um betri tíð. Það mun birta upp um síðir.

Að upplifa gleði á ný

Anna Lóa Ólafsdóttir ráðgjafi hefur fjallað um sorgina í pistlaskrifum sínum og um verkefnið að finna fyrir gleði á ný. Á vefsíðu sinni Hamingjuhornið.is segir hún: „Okkur hefur verið gefið val til að takast á við lífið hverju sinni þar sem skiptast á skin og skúrir. Þegar við erum á leið upp úr öldudalnum fylgja því oft tilfinningar sem við eigum erfitt með. Dæmi væri manneskja sem fær samviskubit þegar hún finnur hláturinn sinn aftur, svona rétt eins og þá sé ákveðin vanvirðing gagnvart þeim vanda sem hún fór í gegnum eða er að takast á við. En hláturinn og gleðin er gjöf sem er einmitt svo dýrmæt á svona stundum. Þannig er okkur líka gefið tækifæri til að upplifa einlæga gleði og hamingju og því ættum við að taka því fagnandi þegar við finnum að við erum smám saman að koma til baka. Ef þú ert að finna sjálfa þig aftur, njóttu þess þá að finna þá einlægu gleði sem fylgir því að koma til baka – já og koma til baka sem betra og þroskaðra eintak af þér þrátt fyrir að hafa viljað vera án erfiðleikanna í byrjun. Ef þú hefur ekki viljað hitta fólk þá þarftu kannski einmitt á því að halda og sérstaklega ef það eru einstaklingar sem taka þér eins og þú ert. Mundu að það hafa ekki allir burði til að bera söguna þína – veldu með hverjum þú deilir og deildu með þeim sem eru tilbúnir að viðurkenna að erfiðleikarnir höfðu áhrif á þig og nýja eintakið af þér á rétt á sér. Það er líka gjöf sem fylgir því að hafa elskað einhvern því sá kærleikur hefur gefið lífi okkar dýpri merkingu og jafnvel gert það að verkum að okkur þykir vænna um annað fólk. Einstaklingar sem unnið hafa farsællega úr sorg sinni, leyft sér að finna til og upplifa vanmátt, ganga oft til framtíðar sterkari og heilli einstaklingar en áður. Verum meðvituð/-aður um að það er ekki endilega batamerki þegar allt er eins og það var áður!“